Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir dómstólinn eiga eftir að meta hvað réttarhöld landsdóms yfir Geir H. Haarde munu taka langan tíma og hugsanleg áhrif þeirra á störf Hæstaréttar.
Fimm hæstaréttardómarar sitja í landsdómi og munu þeir því láta af störfum tímabundið á meðan mál Geirs H. Haarde verður tekið fyrir í landsdómi.
„Þetta mat hefur bara ekki farið fram en að sjálfsögðu mun þetta hafa einhver áhrif, það er enginn vafi. Það er alveg nóg að gera í Hæstarétti. Það er alveg á hreinu,“ segir Þorsteinn sem kveður mál fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi taka lengri tíma en venjuleg dómsmál í Hæstarétti þar sem öll rannsókn málsins fer fram fyrir landsdómi.
„Þarna fara allar yfirheyrslur líka fram. Við vitum ekkert ennþá eftir hverju verður óskað. Það á alveg eftir að koma fram hvað sækjandi og verjandi óska eftir að mörg vitni komi fyrir dóminn. Það á eftir að taka lengsta tímann, skýrslutökur fyrir dóminum.“