Myndband sýnt fyrir luktum dyrum

mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur fallist á að myndskeið, sem sýnir konu ráðast á lögreglumenn, verði sýnt fyrir luktum dyrum í réttarhaldi yfir konunni. Konan er ákærð fyrir að hafa ráðist á valdstjórnina með brjóstahaldara sínum.

Konan rökstuddi kröfuna með því, að málið væri neyðarlegt fyrir hana sökum þess að hún hafi verið drukkin og í uppnámi þegar atburður málsins gerðist auk þess sem henni sé gefið að sök að hafa ráðist gegn valdstjórninni með brjóstahaldara sínum. 

Þá hafi tilteknir fjölmiðlar sýnt málinu áhuga og birt um það fréttir. Því séu töluverðar líkur á því að þeir fjalli frekar um það og alls kostar óvíst að aðrir fjölmiðar gæti nafnleyndar sem þó hafi verið gert fram að þessu. 

Einnig byggi ákæruvaldið saksóknina að verulegu leyti á myndbandsupptöku sem sýni konuna nakta og í verulegu uppnámi.  Slíkar myndir eigi ekki erindi við almenning.  Loks sé til þess að líta að brotin sem séu gefin að sök séu smáfelld og sú refsing sem á hana yrði lögð með opinberri umfjöllun um málið og nafnbirtingu í ósamræmi við ætluð brot hennar. 

Hérðaðsdómur Reykjavíkur synjaði ósk konunnar og sagði í úrskurði að meginregla íslensk réttarfars sé að þinghöld í dómsmálum skuli almennt fara fram í heyranda hljóði.  Af þessu leiði að þeir sem riðnir eru við dómsmál og vandamenn þeirra verði almennt að sætta sig við að fjallað sé um þau opinberlega, þótt það sé fallið til þess að valda þeim angri.

Hæstiréttur féllst hins vegar á, að rök stæðu til að loka þinghaldi þegar umræddar myndbandsupptökur verða sýndar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert