„Þarna er verið að eltast við veikt fólk, tvo einstaklinga sem hafa verið veikir,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, einn talsmanna samtakanna Bótar, í gagnrýni á málsmeðferð Atlanefndarinnar. Guðmundur Ingi telur Vinstri græna hafa svikið loforð. Tónlistarhús sé tekið fram yfir mat fyrir fátæka.
Baráttusamtökin Bót voru stofnuð fyrr í mánuðinum og var húsfyllir á stofnfundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem ræðumenn lýstu yfir miklum vonbrigðum með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málefnum fátækra.
„Ef við höfum efni á að byggja tónlistarhúsið Hörpu af hverju höfum við ekki efni á að láta alla hafa mat? Hver er forgangurinn?“ spyr Guðmundur Ingi og heldur áfram.
„Þarf fólk meira á því að halda að næra sálina með tónleikum en að borða? Ég segi að það þurfi meira á mat að halda. Annars höfum við ekkert gagn að hinu,“ segir Guðmundur Ingi og bætir því við að margir öryrkjar lifi undir fátæktarmörkum.
Margir hafi svo lítið á milli handanna að þeir verði að neita sér um nauðsynjar.
Út í hött að verðlauna Atla
- Finnst þér ríkisstjórnin bera hag almennings fyrir brjósti?
„Nei. Ég nefni til dæmis að í gær [í fyrradag] var verið að verðlauna Atla út af þessum landsdómi sem mér finnst út í hróa. Þarna er verið að eltast við veikt fólk, tvo einstaklinga sem hafa verið veikir. Ég veit hvernig er að vera veikur og á meðan ekki er búið að taka þá sem eru valdir að bankahruninu og ná peningum af þeim getum við ekki verið að djöflast í öðrum.
Ég segi fyrir mig að Atli lofaði ýmsu fyrir kosningar. Vinstri grænir lofuðu til dæmis að skerða ekki lífeyri öryrkja. Þeir hafa svikið þetta allt. Þeir eru búnir að skerða mig um 40-50.000 krónur á mánuði frá áramótum. Þannig að ég segi að þeir gera þveröfugt við það sem þeir lofa.“
Guðmundur Ingi fordæmir tekjutengingu slysabóta.
„Ég skil ekki af hverju þetta er ekki tekið út. Þetta étur upp slysabætur,“ segir Guðmundur Ingi sem kveðst binda vonir við opinn fund með Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra um miðjan mánuðinn.