Skoða kaup á 40 metanvögnum

Hugsanlega fer metanstrætó að keyra um götur höfuðborgarinnar á næsta …
Hugsanlega fer metanstrætó að keyra um götur höfuðborgarinnar á næsta eða þarnæsta ári. Kristinn Ingvarsson

Stjórn Strætó ræðir nú tillögur um að kaupa 40 metanknúna strætisvagna. Verði tillögurnar samþykktar gætu fyrstu 20 vagnarnir komið í notkun á árunum 2011 og 2012. Áætlað er að kostnaður Strætó við fjárfestinguna sé 1.400-1.600 milljónir króna.

Málið er enn á frumstigi, en minnisblað frá umhverfis - og samgöngusviði Reykjavíkurborgar var lagt fyrir síðasta fund stjórnar Strætó. Reynir Jónsson, forstjóri Strætó, segir að eftir sé að undirbúa málið betur. Leggja þurfi tillögurnar síðan fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu því að þau eru ábyrg fyrir fjárfestingum Strætó.

Reynir sagði að strætó sem gengi fyrir gasi væri dýrari í innkaupum en díselstrætó og rekstrarkostnaður væri líka meiri, en þó væri tækninni sífellt að fleygja fram og því væri rekstrarkostnaðurinn einn af þeim þáttum sem þyrfti að fara betur yfir. Hagkvæmnisútreikningar miðuðust við núverandi verð á gasi og dísilolíu.

Reynir skoðaði nýverið almenningssamgöngur í Malmö í Svíþjóð en þar aka um 350 gasstrætisvagnar um götur. Hann sagði mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða í þessu efni.

Reynir sagði að þetta væri spennandi verkefni, en það væri að mörgu að hyggja áður en ákvörðun verður tekin um hvort ráðist verður í þetta. M.a. þyrfti að tryggja að hægt verði að standa þannig að áfyllingu á vagnanna að áfylling dygði allan daginn. Ennfremur þyrfti að vera til varabirgðir af gasi því að ef eitthvað óhapp yrði í Álfsnesi, þar sem gasið verður til, yrði að vera hægt að grípa til varabirgða svo að bílaflotinn stöðvaðist ekki.

„Spurningin er hvað samfélagið er tilbúið til að fórna miklu fyrir í fyrsta lagi hreinna loft og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í öðru lagi þarf að hafa í huga að það er þjóðhagslegur sparnaður að vera ekki að eyða dýrmætum gjaldeyri í að flytja inn olíu. Í þriðja lagi má ekki gleyma því að við erum í dag að kveikja í stórum hluta af því gasi sem kemur upp úr haugunum í Álfsnesi,“ sagði Reynir og bætti við að þetta þyrfti að hafa í huga þegar menn veltu fyrir sér þeim aukakostnaði sem þetta verkefni hefði líklega í för með sér fyrir Strætó.

Verði farið út í þessa fjárfestingu þarf að koma upp hægáfyllingu á metangasi á geymslustað Strætó á Hesthálsi og varabirgðum af gasi til að bæta afgreiðslu og tryggja afhendingaröryggi. Vagnarnir verði fjármagnaðir með láni frá Evrópska fjárfestingabankanum gegnum ELENA verkefnið en Metan hf. fjármagni áfyllibúnað og búnað fyrir varabirgðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka