Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill að boðað verði strax til kosninga. „Það er löngu tímabært að kjósendur fái tækifæri til að
segja sína skoðun á þessu hörmungarástandi sem hér ríkir.“
Ólöf gagnrýnir harðlega hvernig staðið að atkvæðagreiðslu um málshöfðun gegn ráðherra í pistli sem hún ritaði á heimasíðu sína.
„Það fór sem margan grunaði, hluti þingmanna Samfylkingar og Framsóknarflokks höfðu ekki þrek til þess að kasta sínum pólitísku skikkjum þegar Alþingi breyttist í ákæruvald. Atkvæðagreiðslan var nákvæmlega útfærð af þingmönnum Samfylkingarinnar til þess að tryggja að þeirra ráðherrum yrði hlíft og fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde færi einn fyrir Landsdóm. Hlægilegt er að heyra suma þessara þingmanna halda því fram, að þar á bæ hafi menn fylgt sannfæringu sinni og voga sér að fjargviðrast út í Sjálfstæðisflokkinn – sem einn fylgdi sinni skoðun til enda. Nokkuð sem engin líkindi eru til að þetta fólk hefði gert.
Meiri hluti þingmanna á Alþingi hafði ekki þor og dug til þess að fylgja þeim viðmiðum til enda sem í því felast að taka að sér ákæruvald. Í stað þess sýndi þetta fólk sitt rétta pólitíska andlit, allt til þess að halda saman óhæfri og fullkomlega gagnslausri ríkisstjórn.
Og svo vogar þetta fólk sér að tala um að nauðsynlegt sé að ná samstöðu um mikilvæg mál. Dettur nokkrum manni til hugar að hægt sé að vinna með þessu fólki í einhverju máli? Hefur þetta fólk ekki sýnt að það er ekki traustsins vert? Þarf frekari vitnanna við?
Við sitjum uppi með uppgefna ríkisstjórn sem hefur ekki einu sinni þrek til þess að játa sig sigraða. Hún hefur engar lausnir handa vonlitlum heimilum. Hún veit ekkert hvernig á að leysa úr aðsteðjandi efnahagsvanda. Eina svarið við þessari ömurlegu stöðu er að boðað sé til kosninga hið allra fyrsta í þessu landi. Það er löngu tímabært að kjósendur fái tækifæri til að segja sína skoðun á þessu hörmungarástandi sem hér ríkir.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er í setuverkfalli – það verður að rjúfa,“ segir Ólöf í pistli sínum.