„Er ekki með neina sleggjudóma“

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Ómar

„Ég er ekki með neina sleggjudóma. Það er einmitt við þeim sem ég er að vara,“ segir Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, aðspurður um ummæli sem hann lét falla í morgun um landsdóm og ákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Hátt í 30 fundargestir gengu út þegar Ögmundur ávarpaði landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fer nú fram á Akureyri.

„Ég er að vara við því að persónugera mál og að hafa uppi sleggjudóma,“ segir Ögmundur í samtali við mbl.is.

„Ég beindi þeim orðum til allra sveitarfélaganna í landinu að þau skoðuðu sig um í eigin ranni. Hvort það væri ástæða til þess að fara í saumana á eigin gjörðum á liðnum misserum og árum. Ég veit ekki hvort það var það sem olli þessu uppnámi. En ummæli mín voru ekki til að meiða einn eða neinn - þvert á móti,“ segir hann.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var ein þeirra sem gekk út af fundinum í morgun. Hún sagði í samtali við mbl.is að ummæli Ögmundar varðandi ákæruna á hendur Geir, þ.e. að málið væri ekki persónulegt, væri óviðunandi.

„Áhersla mín var á það að þótt gjörðir einstaklings væru rannsakaðar fyrir dómi, og hann jafnvel sakfelldur, þá snýst málið um gjörðir hans en ekki hans persónu. Þetta er grundvallarhugsun réttarríkisins,“ segir Ögmundur.

Menn verði að ræða þessi mál á slíkum forsendum en ekki öðrum.

„Á sama hátt og ef maður brýtur umferðarlög með hraðakstri þá er hann dæmdur fyrir hegðan sína en það er ekki verið að dæma hann sem manneskju,“ segir hann ennfremur.

Í tilfelli Geirs sé ekki verið að lögsækja persónuna heldur embættismanninn og rannsaka hvort hann hafi gerst brotlegur við lög sem gildi um ráðherra.

„Ég hef einmitt lagt áherslu á það, hvað varðar forsætisráðherrann fyrrverandi, þá þekki ég hann sem dreng góðan og það var það sem ég vísaði til í ræðu minni,“ segir Ögmundur Jónasson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert