Fá reikninga 1. nóvember

Ótollaðir bílar í geymslu í kjölfar bankahrunsins.
Ótollaðir bílar í geymslu í kjölfar bankahrunsins. Ómar Óskarsson

Viðskiptavinir SP-fjármögnunar fá endurreiknaða reikninga 1. nóvember næstkomandi vegna lánasamninga hjá fyrirtækinu en þeir voru frystir frá og með málsmeðferð Hæstaréttar í sumar. Reikningurinn miðast við venjulegan mánuð á nýjum forsendum og framlengist lánstíminn sem nemur frestuninni.

Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar, rifjar upp aðdragandann.

„Hæstaréttardómurinn fellur í júní. Eftir það er tekin ákvörðun, af því að við höfum ekki upplýsingar um hvernig við eigum að reikna vexti, um að bíða eftir útspili stjórnvalda. Það koma tilmæli í kjölfarið frá Seðlabanka Íslands og fjármálaeftirlitinu um að við eigum að vera búnir að endurreikna lánin fyrir 1. september. Þá fer í gang gríðarleg vinna - en engin innheimta - við að endurreikna lánin,“ segir Kjartan Georg og heldur áfram.

„Við rákumst stöðugt á veggi. Það vöknuðu endalausar spurningar um hvernig bæri að halda á málum. Þannig að við sáum að við myndum aldrei geta tekið nema hluta af málunum fyrir í tíma. Síðan framlengir Seðlabanki Íslands og fjármálaeftirlitið frestinn til 1. október.

Í millitíðinni kemur Hæstaréttardómur um hvaða vexti skuli miðað við. Þannig að við erum allavega komnir með vextina á hreint. Síðan tökum við ákvörðun um að við ætlum ekki að senda út rukkun í september með gjalddaga í október heldur ætlum við að fresta því þar til í nóvember.“

Fyrsti skammturinn á leiðinni

Kjartan Georg segir endurskoðunina verða kynnta fyrir viðskiptavinum SP-fjármögnunar á næstu dögum. 

„Við erum á fullu að vinna í þeim málum og á næstu dögum munu menn fá fyrsta skammtinn, upplýsingar um hvernig málin líta út og hvernig greiðslan verði sem muni hefjast aftur 1. nóvember.

Síðan hefur viðskiptaráðherra boðað lagasetningu sem tekur á þeim óvissuþáttum sem Hæstaréttardómurinn úrskurðar ekki um, svo sem yfirtekna samninga og fleira.“

Kjartan Georg telur að endurskoðunin muni mælast vel fyrir. 

„Ég held að menn verði almennt sáttir við það sem kemur út úr þessu.“

Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar.
Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-fjármögnunar. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert