Herjólfur þarf að fara í slipp

Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn. Rax / Ragnar Axelsson

Herjólfur þarf að fara í slipp, m.a. vegna skemmda sem orðið hafa á dýptarmæli ferjunnar. Einnig er ætlunin að skoða botn skipsins. Guðmundur Pedersen, rekstrarstjóri Herjólfs hjá Eimskip, segist vona að ferðir skipsins falli aðeins niður í einn dag vegna þessa.

„Það eru tvær ástæður fyrir því að skipið þarf að fara í slipp. Við þurfum að gera við gamla skemmd á skrúfublaði. Síðan ætlum við að nota tækifærið og skoða botn skipsins en það hefur sem kunnugt er tekið nokkrum sinnum niðri í Landeyjarhöfn. Við þurfum að vera vissir um að allt sé í lagi, bæði gagnvart öryggi skipsins og einnig gagnvart tryggingafélagi þess. Við vitum að annað af tveimur botnstykkjum fyrir dýptarmæli er skemmt og það þarf að gera við það. Við höfum líka séð á neðansjávarmyndum að botninn er orðinn fínt skrapaður og við þurfum að skoða það betur,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði að stefnt væri að því að skipið færi í slipp í Hafnarfirði í næstu viku. Ef ekkert óvænt kæmi í ljós myndu ferðir aðeins falla niður einn dag.

Herjólfur hefur síðustu daga siglt til Þorlákshafnar vegna þess að sandrif lokar Landeyjarhöfn. Ekki er ljóst hvenær hægt verður að opna höfnina. Sandæluskipið  Perlan er bilað, en erfitt er að nota það til dýpkunar á þessum árstíma því að það getur ekki athafnað sig ef ölduhæð fer yfir einn metra. Verið er að kanna hvort hægt er að fá skip erlendis frá til dýpkunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert