Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, flutti ræðu um framtíð stjórnmála á tónlistarhátíðinni Woodstock 5 stelle í Cesena á Ítalíu í gær en hún fór með frumsamið ljóð í formála ræðunnar. Um 80.000 manns sóttu hátíðina. Birgitta fagnar stofnun ítalskrar útgáfu af Hreyfingunni.
Um 80.000 manns sóttu hátíðina en Birgitta tók einnig þátt í blaðamannafundi á ítalska þinginu.
Á fundinum fjallaði Birgitta um IMMI-verkefnið en fram kemur í tilkynningu að með því skapi Ísland „sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi verndun tjáningar- og upplýsingafrelsi“.
Fram kom í ræðu Birgittu að hún bindur vonir við að ítalskir lýðræðissinnar fylgi fordæmi Hreyfingarinnar og fylki sér að baki nýstofnaðs stjórnmálaflokks þar í landi í anda afsprengis búsáhaldabyltingarinnar.
Reynsla Hreyfingarinnar hvetji flokkinn til dáða
„Við stofnuðum Hreyfinguna átta vikum fyrir kosningar. Við áttum enga peninga og enginn vissi um okkur. Samt fengum við meira en 7% atkvæða í þingkosningunum 2009. Ég vonast til að sjá sömu tölur hjá hreyfingunni ykkar í kosningunum 2010,“ sagði Birgitta í lauslegri þýðingu.
Birgitta segir 21. öldina munu verða öld alþýðunnar og að í hönd sé að fara umbreyting stjórnmálanna með liðsinni fjöldans.
„Ég hvet ykkur eindregið til að ganga til liðs við þessa ótrúlegu Hreyfingu (e. Movement) sem Beppe Grillo er meðstofnandi að,“ sagði þingkonan og vísaði til ítölsku útgáfunnar af Jóni Gnarr. Benti hún jafnframt á þetta myndband um Grillo og feril hans.
Ræðu og ljóð Birgittu má nálgast hér fyrir neðan.