Nýjar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga

Kort af sameinuðu sveitarfélagi á Vestfjörðum.
Kort af sameinuðu sveitarfélagi á Vestfjörðum.

Nefnd, sem  kannað hef­ur sam­ein­ing­ar­kosti sveit­ar­fé­laga í öll­um lands­hlut­um, hef­ur sett fram fyrstu hug­mynd­ir um sam­ein­ing­ar­kosti. Verður fjallað um þær á landsþingi  Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sem nú stend­ur á Ak­ur­eyri.

Umræðuskjalið hef­ur að geyma ábend­ing­ar um sam­ein­ing­ar­kosti í öll­um lands­hlut­um. Á Vest­ur­landi eru sett­ir fram þrír kost­ir: Eitt sveit­ar­fé­lag eða tvö og þá yrðu Akra­nes og Hval­fjarðarsveit sam­an og hins veg­ar Borg­ar­byggð, Skorra­dals­hrepp­ur, Dala­byggð, Stykk­is­hólm­ur, Grund­ar­fjörður, Snæ­fells­bær, Helga­fells­sveit og Eyja- og Mikla­holts­hrepp­ur.

Á Vest­fjörðum eru sett­ir fram nokkr­ir kost­ir, þar á meðal að öll sveit­ar­fé­lög­in verði sam­einuð, og að  Ísa­fjarðarbær, Bol­ung­ar­vík og Súðavík­ur­hrepp­ur sam­ein­ist ann­ars veg­ar og hins veg­ar Reyk­hóla­hrepp­ur, Vest­ur­byggð, Tálkna­fjarðar­hrepp­ur, Árnes­hrepp­ur, Kaldr­ana­nes­hrepp­ur og Stranda­byggð. Einnig er varpað fram öðrum kost­um, meðal ann­ars að þrjú sveit­ar­fé­lög sam­ein­ist í aðra lands­hluta.

Á Norður­landi vestra er einkum bent á tvo kosti, ann­ars að veg­ar sveit­ar­fé­lög­in í Húna­vatns­sýsl­um sam­ein­ist og hins veg­ar sveit­ar­fé­lög­in tvö í Skagaf­irði og á Norður­landi eystra eru nokkr­ir kost­ir sett­ir fram, til dæm­is að sam­eina sveit­ar­fé­lög við Eyja­fjörð og síðan sveit­ar­fé­lög­in í Þing­eyj­ar­sýsl­um og sett­ir eru fram nokkr­ir fleiri val­kost­ir.

Þá er bent á mögu­lega sam­ein­ingu allra sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi en á veg­um Sam­taka sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi hef­ur slík sam­ein­ing verið til ná­inn­ar skoðunar. Fleiri kost­ir eru sett­ir fram og á Suður­landi er sett fram hug­mynd um tvö sveit­ar­fé­lög til þrjú sveit­ar­fé­lög. Á Suður­nesj­um er ann­ars veg­ar bent á að sam­eina mætti öll fimm sveit­ar­fé­lög­in í eitt eða að Grinda­vík­ur­bær, Sand­gerði og sveit­ar­fé­lög­in Garður og Vog­ar sam­ein­ist og þannig verði tvö sveit­ar­fé­lög á svæðinu.

Höfuðborg­ar­svæðið er ekki und­an­skilið í umræðuskjal­inu og þar bent á mögu­lega sam­ein­ingu Seltjarn­ar­ness, Kjós­ar­hrepps og Reykja­vík­ur og hugs­an­lega sam­ein­ingu Álfta­ness og Garðabæj­ar.

Umræðuskjal um sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert