Reiðin ráði ekki för

Hörður Torfason leikstjóri og söngvaskáld.
Hörður Torfason leikstjóri og söngvaskáld. Ómar Óskarsson

Reiðin má aldrei ráða för þegar mótmæli eru annars vegar segir Hörður Torfason söngvaskáld, aðspurður um fyrirhuguð mótmæli og ólguna í þjóðfélaginu. Ofbeldi leysi aldrei neinn vanda. Hörður kveðst íhuga að taka aftur að sér stjórn mótmæla við Austurvöll, jafnvel þótt það kosti hann vinsældir.

- Hvernig er þér innanbrjósts, nú þegar önnur hrina mótmæla virðist blasa við tæpum tveimur árum frá hruni?

„Í raun og veru hafa verið stöðug mótmæli allan tímann eftir að ég stoppaði. Síðasti fundurinn sem ég stóð fyrir fór fram 14. mars 2009. Þetta stóð yfir frá 11. október helgina eftir hrun. Þetta voru mótmæli sem ég stóð fyrir.

Síðan hafa verið nánast stöðug mótmæli en það sem hefur einkennt þau er að þau eru illa skipulögð og illa ígrunduð og mjög ómarkviss þannig að þau koma ekki til með að skila neinum árangri. Það mætti flokka margt af þessu sem óeirðir frekar en mótmæli. Þegar reiðin er látin stjórna bitnar hún bara á þeim sem eru reiðir. Það er einfalt.“

Andvígur ofbeldi í allri mynd

- Nú hefur Steinar Immanúel Sörensson, einn talsmanna hópsins sem hyggst mæta með svefnpoka á Austurvöll um miðnætti í nótt, látið þau orð falla að hann geti ekki lofað því að mótmælin fram undan verði friðsöm. Hvað finnst þér um svona málflutning?

„Ég er persónulega á móti ofbeldi í allri sinni mynd. Vel skipulögð mótmæli bera árangur af því að þeim er vel stjórnað og þau eru án ofbeldis. Ofbeldi kallar bara fram ofbeldi. Þá er komið stríð og stríð er langvarandi ástand sem ekki skilar neinu nema sársauka eða meiðslum.“

Hrunið enn óuppgert

- Af hverju erum við ekki búin að ná sáttum í þjóðfélaginu? Hvers vegna logar allt þjóðfélagið á tveggja ára afmæli hrunsins?

„Það er ekki byrjað að gera upp hrunið. Það er málið. Almenningur er látinn sitja undir greiðslum og óréttmætum aðgerðum. Á meðan svona er er enginn furða að ástandið er eins og það er og það á ábyggilega eftir að versna. Ég yrði ekki hissa á því.“

- Hvaða áhrif heldurðu að það muni hafa þegar heimilin fara á uppboð?

„Mjög slæm. Ef maður setur sig í spor fólksins að þá er verið að henda því út af heimilum. Ég var að segja við fólk sem ég var að ræða við í gær að það kæmi mér ekkert á óvart ef það kæmi í ljós að afsláttur eins auðmanns - það er verið að afskrifa allskonar skuldir auðmanna - samsvaraði öllum skuldum almennings í landinu.“

Þrjár meginkröfur

- Réttlætishugsjónin var sem rauður þráður í búsáhaldabyltingunni?

„Ég er ábyrgur fyrir búsáhaldabyltingunni. Ég lagði fram þrjár kröfur í upphafi í október 2008, að ríkisstjórnin færi frá, stjórn seðlabankans og fjármálaeftirlitsins. Þetta var mín krafa. Til þess að undirstrika þessar kröfur og auka skilning fólks á því hvað væri að gerast í þjóðfélaginu fékk ég allskonar ræðufólk sem kom með allskyns kröfur. Krafan sem ég kom fram með voru þessar þrjár kröfur. Punktur. Hvaða kröfur aðrir komu með veit ég ekki. Það komu allskonar hliðarkröfur í kringum þetta.“

Tekur áratugi að breyta þjóðfélagi

- Réttlætiskrafan hefur þó verið undirliggjandi, ekki satt?

Jú. Vitandi það að slíkt tekur áratug, jafnvel áratugi. Við breytum ekki þjóðfélagi á einu ári eða tveim. Það er ég alveg meðvitaður um. Þetta tekur allt sinn tíma.“

Setji fram skýrar kröfur

- Hvað viltu þá segja við fólk sem hefur verið virkt í þessari baráttu, er óánægt með stjórnina og er hugsanlega að fyllast vonleysi með að það skuli skorta valkosti? Hvað viltu segja við þetta fólk?

„Nú er setjast niður og fara yfir hvað það er sem við viljum. Hvað er næsta skref? Ef fólk ætlar að rjúka fram með hundrað kröfur er það vonlaust mál. Við náum markmiðum ef við tökum einn hlut í einu, smáhlut í einu, svipað og ég gerði í búsáhaldabyltingunni. Það voru þrjár kröfur. Punktur. Þegar þær náðust stoppaði ég og hvíldi.“

Undir þrýstingi á hverjum degi

- Gætirðu hugsað þér að taka þér aftur stöðu sem stjórnandi mótmæla á Austurvelli?

„Já, svo sannarlega. Ég hef mikið hugleitt það. Það er legið á mér á hverjum einasta degi. Það hefur aldrei stoppað. En menn verða að hafa í huga að þetta gerði ég launalaust. Það er á hverjum degi sem ég fæ óskir og jafnvel beinar skipanir um að snúa aftur. En ég veit hins vegar að fólk gerir sér ekki grein fyrir hversu gríðarlega mikil vinna og álag þetta var.“

- Hvernig hefur gengið að koma lífinu í hefðbundnari farveg eftir að þessu lauk?

„Það hefur verið mikið áreiti og ég finn mikið fyrir því að fólk snýr baki við manni á margan hátt. Fólk verður hrætt. Einkalífið er fínt en út á við, hvað snertir aðsókn að tónleikum og svo framvegis, að þá hefur það allt fallið um 60%. Það eru hreinar línur,“ segir Hörður Torfason söngvaskáld.

Hörður hvetur til friðsamra mótmæla.
Hörður hvetur til friðsamra mótmæla. Ómar Óskarsson
Hörður segir aðsókn að tónleikum sínum hafa dregist saman um …
Hörður segir aðsókn að tónleikum sínum hafa dregist saman um 60% vegna þátttöku sinnar í búsáhaldabyltingunni. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert