Svindlbréf send frá „íslensku lottói“

Lögreglu í Lincoln-héraði í Missouri í Bandaríkjunum hefur borist fjöldi kvartana frá fólki sem hefur fengið bréf frá íslensku lottói. Ljóst er að bréfin eru send í þeim tilgangi að reyna að hafa fé af fólki.

Þetta kemur fram á vefnum ksdk.com. Bréfin eru sögð vera frá MTA Sweepstakes Lottery í Reykjavík. Í flestum bréfanna kemur fram að viðtakandi þeirra hafi unnið hundruð þúsunda dollara í lottóinu sem bíði þess að vera greidd út. Fólk er beðið að hafa samband við MTA Lottery og gefið er upp símanúmer sem fólk er beðið að hringa í. Lögregla varar fólk eindregið við að hringja í þetta númer.

Eins og í flestum svikabréfum af þessu tagi er fólk sem hefur samband beðið um að borga gjöld af ýmsu tagi áður en hægt er að afhenda verðlaunaféð. Sagt er að þegar búið sé að borga verði sendar upplýsingar um greiðsluna. Verðlaunaféð skilar sér að sjálfsögðu aldrei til viðtakenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert