Úthafsrækjustofninn enn lítill

Árleg stofnmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á úthafsrækju fyrir norðan og austan land leiðir í ljós, að úthafsrækjustofninn mælist enn lítill og er veiðistofnsvísitalan svipuð og hún hefur verið síðustu fjögur ár. Mjög lítið fannst af rækju í austarlega á miðunum miðað við síðustu ár.

Hins vegar var meira af rækju útaf Norðurlandi, milli 15 og 20. gráðu vestlægrar lengdar, en hefur verið undanfarin tvö ár.

Rækjan var að meðaltali stór og var hún svipuð og árið 2009. Smæst var rækjan norðaustur af landinu, 288 stykki í kílói, en stærst austast, 146 stykki í kílói á rannsóknasvæðinu.

Bráðabirgðaútreikningar sýna að nýliðun rækju er enn slök ef miðað er við allt svæðið og mældist hún sú næstlélegasta frá upphafi. Nýliðunin er langt undir langtímameðaltali. Þar kann að spila inn í hlýnun sjávar sem flýtir tíma klaks sem hittir þá síður á hámark þörungablómans. Einnig kann afrán þorsks á ungrækju að valda fækkun ungrækju en þorskgengd hefur verið töluverð á undanförnum árum einkum á svæðunum þar sem smæsta rækjan fæst að jafnaði.

Mikið fékkst af þorski í þessari rækjukönnun eða svipað og í fyrra. Mest var af þorski norður af Húnaflóa og Skagafjörð og einnig austur af landinu.

Niðurstöður leiðangursins benda til þess að úthafsrækjustofninn sé enn lítill og nýliðun slök líkt og undanfarin ár. Miðað við þessar upplýsingar er ólíklegt að rækjustofninn vaxi mikið í bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert