Var brugðið og hissa

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fer fram í Hofi á Akureyri.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fer fram í Hofi á Akureyri. mbl.is/Skapti

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að sér hafi verið brugðið vegna þeirra ummæla sem Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lét falla á landsþingi sambandsins í morgun varðandi landsdóm og ákæru á hendur Geir H. Haarde.

Á bilinu 20 til 30 fulltrúar gengu út eftir að hafa hlýtt á upphafsorð ráðherra.

Halldór segist hafa komið sinni skoðun á framfæri í ræðu sem hann flutti eftir að Ögmundur hafði lokið sínu máli. „Ég sagði eitthvað sem svo að mér hefði verið brugðið og ég verið hissa á að hann skyldi taka þetta upp með þessum hætti,“ segir Halldór.

„Og bætti við yrðum að passa okkur á því að láta ekki tíðarandann bera okkur yfir í eintóma refsigleði,“ segir Halldór.

Hvað varðar ummæli Ögmundar um sveitarstjórnarmenn, þ.e. að sumir þeirra þyrftu að líta í eigin barm, segir Halldór: „Ég bara benti á það að ef einhver refsiverð mál kæmu upp þá væri það verkefni almennra dómstóla að takast á við slíkt.“

Í ræðu sinni sagði Ögmundur að nýafstaðin væri atkvæðagreiðsla á Alþingi sem mörgum hefði verið og væri erfið og hún væri erfiðust þeim sem sæju málin í persónulegu ljósi.

„Sagt er: Drengur góður skal nú ákærður frammi fyrir landsdómi. En sem slíkur er hann ekki ákærður heldur sem ráðherra. Ákæruefnið er brot á lögum um ráðherraábyrgð. Ég tel sennilegt að slík lög hafi margoft verið brotin á undanförnum árum, jafnvel áratugum, og áleitin er sú spurning hvort sambærilegir hluti hafi gerst á sveitarstjórnarstiginu. Hvert og eitt sveitarfélag þarf að litast um í eigin ranni því að á slíkum málum þarf að taka og draga af þeim lærdóma. Það þarf að verða bylting hugarfarsins í íslenskri pólitík ef okkur á að auðnast að breyta starfsháttum til hins betra," sagði Ögmundur.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert