Viðbúnaður með venjulegu sniði

Mótmæli á Austurvelli. Úr myndasafni.
Mótmæli á Austurvelli. Úr myndasafni. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst viðhafa hefðbundinn öryggisviðbúnað við Austurvöll á morgun er Alþingi kemur saman á ný. Skilja hefur mátt á talsmönnum fyrirhugaðra mótmæla á morgun að aukin harka muni færast í mótmæli næstu vikna og minnir lögreglan á að viðurlög séu við að boða til uppþota.

Þannig lét Steinar Immanúel Sörensson, helsti talsmaður hópsins, hafa eftir sér í samtali við fréttavef Morgunblaðsins að hann gæti ekki lofað að mótmælin fram undan yrðu með friðsömu sniði, ummæli sem túlka má sem aðvörun til yfirvalda.

Aðspurður um þessi ummæli segir Geir Jón Þórisson, yfirlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að viðurlög liggi við því að bota til uppþota.

„Ef maður boðar til almenns ófriðar og hvetur til þess getur hann sætt kæru fyrir slíkt,“ segir Geir Jón sem kveðst ekki hafa á hraðbergi hversu hörð viðurlög liggi við brotum af þessu tagi. „Ef það liggur klárt fyrir að einstaklingur boðar til og beinir fólki inn á svona braut þar sem hann er að hvetja til, stendur fyrir og skipuleggur er alveg ljóst að þá getur hann staðið illa.“

Steinar lét ummælin sem vísað er til falla er hann var spurður hvort hópurinn sem hyggst efna til mótmælanna ætlaði að koma nýrri búsáhaldabyltingu af stað. Komst hann þá svo að orði:

„Því miður er ég hræddur um að ný friðsöm bylting sé varla möguleg. Ég held að það verði allt brjálað ef nauðungarsölurnar fara af stað,“ sagði Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert