„Ég vil fá þjóðstjórn. Þessir flokkar eru bara að karpa sín á milli eins og krakkar í sandkassaleik á meðan fólkið er að missa allar sínar eigur. Það er verið að bera fjölskyldur út. Það þarf nýtt fólk,“ sagði Dagur Halldórsson, einn mótmælenda á Austurvelli í nótt.
„Ég er hérna til að styðja íslenska þjóð til að komast út úr þessum erfiðleikum. Mér finnst að það þurfi að gera eitthvað og þess vegna er ég að mæta hérna.“
„Skjaldborgin algjörlega misheppnast“
- Hvernig finnst þér stjórnvöld hafa staðið sig?
„Þau hafa staðið sig mjög illa. Þessi skjaldborg um heimilin hefur algjörlega misheppnast. Ef það eru 700 manns sem bíða í röðum eftir að fá mat í poka þýðir það að bak við þetta fólk eru kannski 1.600 til 1.700 manns sem eiga ekki fyrir mat. Svo er verið að bjóða upp íbúðir ofan af fólki og henda því út á götu. Heilu fjölskyldunum.
Ég held að fólk geti ekki sætt við þetta. Við viljum ekki búa svona á Íslandi. Við gætum verið ríkasta þjóð í heimi með allar okkar auðlindir. Hinir ríku eru búnir að sölsa öllu undir sig og sukkið heldur áfram. Ég hafði fulla trú á þessu fólki sem tók við völdunum en það er greinilega ekki að standa sig.“
- Kaustu annan stjórnarflokkanna?
„Já. Ég kaus Vinstri græna,“ sagði Dagur sem tók að lokum aðspurður fram að hann væri sjálfur ekki á vonarvöl. Hann vildi með veru sinni sýna fólki í erfiðleikum samstöðu.