„Það er ekki verið að hlúa að venjulegu fólki eða litlum fyrirtækjum. Ég veit ekki lengur hvar völdin liggja í þessu þjóðfélagi. Ég studdi Vinstri græna, kaus þá,“ segir Inga Lóa Baldvinsdóttir, einn mótmælenda á Austurvelli í nótt.
„Vinstri grænir eru ef til vill að taka við sökkvandi skipi og hafa því takmarkað svigrúm til aðgerða. Mér finnst það engu að síður dapurlegt að þau skuli ekki bjóða upp á nein úrræði fyrir venjulegar fjölskyldur.“
- Myndirðu kjósa Vinstri græna í dag?
„Ég myndi hugsa mig um. Ég væri reiðubúin að kjósa einstaklinga sem ég ber traust til. Ég ber ekkert traust til flokkanna lengur.“
Kunningi hennar Dagur Halldórsson bætir því næst við að hann vilji sjá Lilju Mósesdóttur taka við forystu í ríkisstjórninni og samsinnir Inga Lóa því.