„Fjárlagafrumvarpið er mjög stór áfangi, kannski stærsti áfanginn í því að gera ríkisfjármálin aftur sjálfbær,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem kynnti Alþingi fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011. Það gerir ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 36 milljarðar króna, sem jafngildir 2,1% af vergri landsframleiðslu.
Stefnt er að því að ná verulegum bata á afkomu sjóðsins á næstu árum. „Takist það [að gera ríkisfjármálin sjálfbær], komist hallinn niður í fáeina tugi milljarða króna, erum við komin mjög langan veg,“ sagði Steingrímur þegar hann fór yfir helstu niðurstöður fjárlaganna með fjölmiðlamönnum.
Minni halli í ár en spár gerðu ráð fyrir
Útlit er fyrir að hallinn á þessu ári verði 74,5 milljarðar króna, sem er umtalsvert betri niðurstaða en fjárlagafrumvarp síðasta árs gerði ráð fyrir. En þá var gert ráð fyrir 98,8 milljarða halla á ríkissjóði.
Gert er ráð fyrir 44 milljarða viðsnúningi í rekstri ríkissjóðs árið 2011 og verður farin blönduð leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum. Ráðstafanir til aukinnar tekjuöflunar verði 11 milljarðar króna og samdráttur í útgjöldum ríkissjóðs muni nema 33 milljörðum kr. miðað við mat á óbreyttum horfum.
Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að heildartekjur ársins 2011 séu áætlaðar 477,4 milljarðar króna og að gjöldin verði 513,8 milljarðar. Tekjurnar aukast um 24,1 milljarð króna frá áætlun 2010, ef tekjur vegna Avens eru undanskildar.
Bent er á að halli ríkissjóðs árið 2008 hafi verið áætlaður 216 milljarðar króna. Fjármálaráðherra segir að ef það takist á ná þessum viðsnúningi sé mikilvægum áfanga náð í að rétta halla ríkissjóðs eftir efnahagshrunið árið 2008.
Hin eiginlegu hrunfjárlög
„Nú eru að mörgu leyti að koma inn af fullum þunga og með mjög sársaukafullum hætti afleiðingar kreppunnar fram á ríkisfjármálin. Það gerði það ekki að sama skapi árið 2009 og jafnvel ekki að fullu 2010, einfaldlega vegna þess að það er tímatöf í kerfinu ef svo má að orði komast. Útjgöldin halda áfram að aukast sem afleiðingar hrunsins og tekjustofnanir hafa haldið áfram að veikjast. Þannig að þetta eru, ef eitthvað er, í raun og veru hin eiginlegu hrunfjárlög,“ sagði Steingrímur við blaðamenn í dag.
Hann bætir við að ríkinu sé þröngur stakkur sniðinn.
Stefnt sé að því að tryggja að ríkissjóður geti áfram staðið undir grunnþjónustu við samfélagið og velferðarkerfið.
Steingrímur segir hins vegar að menn verði að horfast í augu við það að sú aðlögun sem verði að eiga sér stað í ríkisfjármálunum muni hafa víðtæk áhrif á flesta ef ekki alla hópa samfélagsins. „Það verður minna lagt í þjónustu og stuðningi ríkisins af ýmsu tagi,“ segir hann.
Vísbendingar um að efnahagsbatinn sé hafinn
Fram kom í máli fjármálaráðherra í dag, sem fór yfir helstu niðurstöður fjármálafrumvarpsins með blaðamönnum, að á tekjuhliðinni sé ekki um að ræða teljandi breytingar á helstu tekjustofnum. Engar aðgerðir í tekjustofnum á boð við tekjuskatt einstaklinga, virðisaukaskatt og tryggingagjald.
Fjármálaráðuneytið bendir á að þróun efnahagsmála 2009 hafi verið mun jákvæðari en fyrri spár hafi sagt til um. Minni samdráttur hafi verið í vergri landsframleiðslu en áður hafði verið spáð og lægri skuldabyrði en gert hafði verið ráð fyrir. Vísbendingar séu um að efnahagsbatinn sé hafinn.
Þá segir að útlit sé fyrir að á næsta ári taki hagkerfið vel við sér eftir þá djúpu lægð sem hafi gengið yfir landið í kjölfar fjármálakreppunnar.
Ríkisstjórnin vill hlífa velferðarþjónustu og tekjutilfærslum til þeirra sem búa við lökustu kjörin eins og kostur er. Í samræmi við þá stefnu verða aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið af þrennum toga: