Írar geta huggað sig við að þeir eru betur staddir en Íslendingar, að mati Charlie Fell, dálkahöfundar Irish Times. Máli sínu til stuðnings bendir Fell á að gögn frá Alþjóðabankanum sýni að þjóðartekjur á mann á Íslandi hafi farið úr jafnstöðu við Dani, Svía og Finna í að minnka um þriðjung.
Fell segir þær raddir heyrast að írsk stjórnvöld eigi að fylgja fordæmi Íslendinga og fara í greiðsluþrot. Írum sé talinn trú um að Íslendingar séu í miðri efnahagsviðreisn og að alþjóðlegir fjárfestar bíði eftir tækifæri til að ávaxta pund sitt á Íslandi.
„Sannleikurinn er sá að íslenska hagkerfið er í djúpri kreppu,“ skrifar Fell og bendir að Íslendingar hafi gengið í gegnum 8 ársfjórðunga í röð þar sem hagvöxtur er neikvæður í 12 mánaða samanburði.
Þá séu stýrivextir Seðlabanka Íslands enn á meðal þeirra hæstu í þróuðum ríkjum þrátt fyrir að hafa fallið úr um 18% niður í 6,25%.
Vefsíða Fell.