Margir af þeim sem söfnuðust saman fyrir framan Alþingishúsið í dag til að mótmæla voru mjög reiðir yfir ástandinu í samfélaginu. Í hópi mótmælenda var fólk sem er að missa húseignir vegna skulda og fólk sem vildi sýna þeim sem eru að missa eignir sínar samstöðu.
Talið er að 2-3 þúsund manns hafi verið á Austurvelli þegar mest var. Hluti mótmælenda var með egg, tómata og fleira sem hann grýtti í átt að alþingismönnum. Alþingishúsið var út atað eftir að mótmælendur höfðu látið andúð sína í ljós.
Sumir höfðu ætlað sér að kasta eggjum í alþingismenn þegar þeir gengu úr dómkirkjunni í alþingishúsið. Þeir fóru hins vegar stystu leið inn um bakdyr hússins til að reyna að forðast eggjakastið.
Lögregla varaði mótmælendur við og sagði að ef lengra yrði gengið yrði beitt táragasi og piparúða.