Mennta- og menningarmálaráðuneytið segir skýrslu Ríkisendurskoðunar á Menntaskólanum Hraðbraut gefa tilefni til þess að taka samstarf ráðuneytisins við skólann til endurskoðunar og meta kosti þess að halda því áfram. Við þá endurskoðun muni ráðuneytið leggja áherslu á að hagsmuna nemenda sé gætt og að vel sé farið með almannafé.
Ríkisendurskoðun gagnrýnir starfsemi harðlega í nýrri skýrslu. Þar kemur fram að skólinn hafi fengið tæplega 200 milljónum of mikið frá ríkinu. Á sama tíma hafi eigandi skólans greitt sér 82 milljónir í arð og aðilar tengdir eiganda skólans hafi fengið 50 milljónir að láni frá skólanum. Að mati Ríkisendurskoðunar eru þessar lánveitingar óeðlilegar enda tengjast þær ekki rekstri skólans.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið segir, að við endurnýjun þjónustusamnings við skólann árið 2007 hafi legið fyrir, að skólinn átti í vandkvæðum með að uppfylla sett markmið um umfang þjónustunnar. Í tengslum við samninginn hafi verið veitt svigrúm til úrbóta og samningurinn gerður til þriggja ára í stað fimm, eins og staðið hafði til.
Síðastliðið vor þurfti að taka afstöðu til áframhaldandi samstarfs og var við það tækifæri hafin athugun á því hvernig til hefði tekist, m.a. var gerð sérstök úttekt á skólastarfinu. Við upphaf skoðunar ráðuneytisins komu fram atriði sem gáfu tilefni til að óska eftir sérstakri úttekt Ríkisendurskoðunar og var það gert í lok júní sl.
Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir, við nokkra þætti í framkvæmd mennta- og menningarmálaráðuneytisins á þjónustusamningnum, sem snúa að því svigrúmi sem skólanum hefur verið veitt til úrbóta. Ráðuneytið segist hafa svarað þeim bréflega.