Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist telja, að fólk sem mótmælti á Austurvelli í dag sé að biðja um aðgerðir vegna skuldavanda frekar en nýjar þingkosningar. Fólk verði hins vegar að sýna þolinmæði og Íslendingar verði að reyna að komast gegnum erfiðleikana saman sem þjóð.
„Við skiljum vel þessa óánægju. Það hefur gengið hægt að vinna úr skuldunum og það hefur ýmislegt tafið fyrr okkur í þeim efnum, óvissa í bankakerfinu, dómsmál og fleira. Ég held að það kraumi hvað mest undir, það á mikill fjöldi heimila í miklum erfiðleikum og við erum okkur vel meðvituð um það," sagði Steingrímur.
Hann sagði, að sér væri að sjálfsögðu nokkuð brugðið, þegar Íslendingar, sem yfirleitt væru mjög friðsamir, gripu til þeirra ráða að kasta eggjum.
„Þetta eru skilaboð til okkar allra, til Alþingis, til stjórnmálamannanna og stjórnmálaflokkanna. Þetta beinist ekki endilega frekar að ríkisstjórninni en stjórnmálunum í heild sinni, sem fólk er óánægt með og telur að hafi ekki staðið sig og ég held að það megi til sanns vegar færa. Það er allt stjórnmálalífið á Íslandi þó nokkuð laskað eftir alla þessa atburði."