Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þegar hann setti Alþingi í dag, að nýafstaðin væri atkvæðagreiðsla á Alþingi, sem hefði reynst þingi og þjóð erfiður hjalli.
Aðeins væru þrír sólarhringar liðnir og nú væri verið að setja nýtt þing sem sýndi, að tímarnir væru enn með breyttum brag og viðfangsefnin reyndu á sjálfan grundvöll stjórnskipunarinnar. Alþingismenn þyrftu að axla ábyrgð, sem áður var bundin fræðilegri umfjöllun.
Ólafur Ragnar sagði, að staða Íslands nú væri sem betur fer til muna betri en dökkir spádómar báru með sér og það sæist líka í áhuga annarra ríkja á að auka samvinnu við Íslendinga. Vinsemd og stuðningur sem víða væri að finna gæfu tilefni til bjartsýni.
„Ísland á þrátt fyrir áföllin marga góða kosti, sóknarfæri sem brýnt er að nýta. Hrakspár sem heyrðust áður fyrr, að orðspor landsins hefði laskast svo í kjölfar bankahrunsins að við myndum einangrast á alþjóðavelli, hafa sem betur fer ekki ræst. Þvert á móti er hægt að færa ítarleg rök fyrir því að staða Íslands hafi sjaldan, ef nokkru sinni, falið í sér jafn fjölbreytt tækifæri, að lega landsins muni og á omandi árum reynast okkur hinn mesti styrkur," sagði Ólafur Ragnar.