St. Jósefsspítali í Hafnarfirði þarf að spara tæplega 500 milljónir á næsta ári. Árni Sverrisson, forstjóri spítalans, segir að það verði ekki gert á annan hátt en að segja upp starfsfólki. Hann reiknar með að 40-50 starfsmenn fái uppsagnarbréf um næstu mánaðamót.
Fjárveitingar til St. Jósefsspítala lækka um 36% á næsta ári samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. „Þetta þýðir að það er óhjákvæmilegt að einhver hluti starfseminnar verður einfaldlega lagður af. Í frumvarpinu kemur fram að ná eigi fram sparnaði á skurðsviðinu.“
Árni sagði að ef spítalinn verði neyddur til að leggja af starfsemi skurð- og handlækningadeildar þá verði að segja upp 40-50 starfsmönnum. Hann segir ekki einu sinni víst að það dugi til að ná fram þessum mikla sparnaði. Starfsmenn eru allir með a.m.k. þriggja mánaða uppsagnarfrest sem þýðir að ef þeim verður sagt upp um næstu mánaðamót taka uppsagnirnar gildi 1. febrúar.
„Áherslan í boðskap ráðuneytisins er að það sé í raun verið að leggja af meira og minna alla sjúkrahúsastarfsemi á landinu nema á Landspítala og Akureyri.“
Árni sagði ljóst að einnig þyrfti að skera niður í rekstri hjúkrunarheimilisins á Sólvangi. „Þar erum við að tala um niðurskurð sem getur ekki þýtt annað en uppsagnir á starfsfólki. Við þurfum hreinlega að grípa til aðgerða sem munu draga úr lífsgæðum þeirra sem búa á Sólvangi.“
Árni kynnti niðurskurðinn á starfsmannafundi í dag. „Fólk var mjög dapurt og upplifir í þriðja skipti á þremur árum mikla óvissu. Fólk er örvæntingarfullt. Í raun og veru horfði ég upp á það sama og við horfðum upp á á Austurvelli í dag,“ sagði Árni um fundinn.
Árni tók fram að ekkert samráð hefði verið haft við starfsfólk St. Jósefsspítala um þessar sparnaðartillögur.