Tilkynnt var í upphafi þingfundar klukkan 16 í dag, að Þór Saari væri formaður Hreyfingarinnar. Margrét Tryggvadóttir verður formaður þinghóps Hreyfingarinnar í stað Birgittu Jónsdóttur, sem gegndi því embætti á síðasta þingi.
Þórunn Sveinbjarnardóttir verður áfram formaður þingflokks Samfylkingarinnar en hún tók við því embætti þegar Björgvin G. Sigurðsson vék tímabundið af þingi í apríl. Hann hefur nú tekið sæti á Alþingi að nýju.
Jórunn Einarsdóttir tók í dag sæti á Alþingi sem varamaður Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna í Suðurkjördæmi. Þá er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG í Suðvesturkjördæmi, í fæðingarorlofi og situr Ólafur Gunnarsson á þingi í hennar stað.