Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði að mótmælin á Austurvelli í dag gæfu það skýrt til kynna, að almenningur væri mjög óánægður með að þingmenn væru að ræða mál sem væru ekki til þess fallin að bæta úr stöðu heimila og fyrirtækja í landinu.
„Við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt þetta og lýsum okkur reiðubúna til að vinna með hverjum sem er til að komast að þeim málum, sem skipta máli í okkar samfélagi," sagði hún.
Ragnheiður Elín sagðist vera mjög reið út í mjög marga en reiðin beindist fyrst og síðast að því að þingmönnum hefði ekki tekist að taka höndum saman um að vinna á vandanum.
„Ég bý í Reykjanesbæ þar sem að í næstu viku á að fara með tugi eða hundruði íbúða á uppboð. Við höfum ekkert leyfi til að bregðast ekki við, koma atvinnulífinu í gang, nýta þau tækifæri sem við höfum og koma okkur að verki."