Vissu að skólinn fékk of háar greiðslur

Menntaskólinn Hraðbraut
Menntaskólinn Hraðbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisendurskoðun segir, að frá upphafi samstarfs menntamálaráðuneytisins og Menntaskólans Hraðbrautar hafi þessir aðilar vitað mætavel, að nemendafjöldi við skólann var ekki í takti við áætlun fjárlaga og að skólinn fékk hærri greiðslur en hann átti rétt á samkvæmt þjónustusamningi.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamningsins er haft eftir fulltrúa ráðuneytisins, að ávallt hafi staðið vonir til þess að aðsókn að skólanum yrði meiri en samningurinn kveður á um og að skólinn gæti tekið inn
nemendur umfram það mark. Ekki yrði þó greitt fyrir þá nemendur heldur skuld skólans við ráðuneytið frá árinu 2006 lækkuð.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir ráðuneytið fyrir að framfylgja ekki skýru ákvæði
þjónustusamningsins við skólann um árlegt uppgjör. Þá telur Ríkisendurskoðun, að ráðuneytið hafi ekki heimild til að gefa eftir skuld skólans við ríkissjóð upp á samtals 126,1 milljón króna vegna ofgreiddra framlaga á árunum 2004–2006.

Í athugasemdum menntamálaráðuneytisins, sem birtar eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar, segir að eftir á að hyggja megi færa rök fyrir því að ekki hafi verið gengið nægjanlega hart fram í samskiptum við Hraðbraut og að tilefni hafi verið til að beita harðari úrræðum. Í öllu falli gefi þessi reynsla tilefni til endurskoðunar á verklagi við uppgjör á þjónustusamningum.

Þessar athugasemdir beri þó að skoða í ljósi þess, að sú skylda sé jafnframt lögð á stjórnvöld að þau gæti meðalhófs í beitingu íþyngjandi úrræða og í þessu tilfelli  hugi jafnframt að hagsmunum nemenda. Mörg dæmi sé hægt að ttilgreina þar sem skólum hafi verið gefið svigrúm til þess að rétta af erfiðan rekstur og í
langflestum tilfellum hafi það nýst til uppbyggingar á rekstrargrundvelli.

Nú sé komið að því að meta hvernig þetta svigrúm hafi verið nýtt hjá Hraðbraut og verði það m.a. lagt til grundvallar ákvörðun um áframhaldið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert