Aftur auglýst eftir framkvæmdastjóra

Starf framkvæmdastjóra Íbúðarlánasjóðs er auglýst að nýju í Morgunblaðinu í dag. Þetta er í annað sinn sem staðan er auglýst, en stjórn sjóðsins komst ekki að niðurstöðu um ráðningu þrátt fyrir marga fundi.

Samkvæmt auglýsingunni þarf framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs að hafa háskólapróf sem nýtist í starfi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi. Þá er þekking á íbúðalánum sögð æskileg og sömuleiðis reynsla af stjórnun og rekstri.  Þetta eru sömu hæfnisskilyrði og voru í fyrri auglýsingu um starfið sem birtist 30. apríl. Umsóknarfrestur rennur út 17. október.

Ráða átti í starf framkvæmdastjóra 1. júlí, en þá lét Guðmundur Bjarnason af starfi. Síðan hefur Ásta H. Bragadóttir gegnd starfi framkvæmdastjóra til bráðabirgða.

27 sóttu upphaflega um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs og voru  fjórir umsækjendur kallaðir í viðtal: Ásta H. Bragadóttir,  Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, Guðrún Árnadóttir, ráðgjafi og Yngvi Örn Kristinsson, ráðgjafi.

Stjórnin hélt marga fundi um málið í sumar án þess að komast að niðurstöðu. Í lok ágúst ákvað stjórnin að skipa þriggja manna valnefnd til að fara yfir umsóknir, en það var gert í kjölfar þess að Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra beindi þeim tilmælum stjórnar að skipa valnefnd. Í kjölfarið dró Ásta H. Bragasóttir umsókn sína til baka, en fyrir lá að meirihluti var innan stjórnar Íbúðalánasjóðs að ráð hana í starfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert