Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður Alþýðubandalagsins gamla, er varð hluti Samfylkingarinnar, var árum saman forseti Alþingis. Guðrún hefur ávallt verið viðstödd setningu þings eftir að hún hætti en ekki núna.
„Ég get ekki neitað því að tilfinningar mínar gagnvart mínum gamla, heittelskaða vinnustað voru talsvert blendnar að þessu sinni,“ segir Guðrún. „Ég á afar erfitt með að sætta mig við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um landsdóminn. Mér finnst algerlega fáránlegt að Geir Haarde sitji þarna einn eftir. Ég var á móti því að nokkur færi fyrir landsdóm og er sár yfir því að þingið skuli standa fyrir svona vitleysu. Auðvitað verður öllum á, ekki að þeir hafi ætlað sér það, en ætla menn nú að fara að draga alla fyrir dómstóla vegna þess?,“ segir Guðrún m.a. í samtali í Morgunblaðinu í dag.