Búið að opna Héðinsfjarðargöng

Margir fóru í gegnum göngin í dag.
Margir fóru í gegnum göngin í dag. Jóhann Óli Hilmarsson

Ögmundur Jónasson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu í dag Héðinsfjarðargöng fyrir almennri umferð. Heildarkostnaður við jarðgangagerðina er um tólf milljarðar króna, en þetta er stærsta framkvæmd í samgöngumálum á Íslandi.

Áður en að klippt var á borða í Héðinsfirði var dagskrá í boði Fjallabyggðar en gestum var ekið með rútum í Héðinsfjörð. Að athöfninni lokinni var áframhaldandi dagskrá í Héðinsfirði m.a. var um 11 km langur trefill prjónaður saman. Ögmundur var hluta trefilsins um hálsinn þegar hann opnaði göngin.

Ekið var úr Héðinsfirði í Ólafsfjörð en þar er hátíðardagskrá í íþróttamiðstöð Ólafsfjarðar.

Héðinsfjarðargöng munu tengja saman bæina Siglufjörð og Ólafsfjörð í sameinuðu sveitarfélagi Fjallabyggð. Göngin stytta leiðina á milli Siglufjarðar og Akureyrar um 44 km ef miðað við að fara Lágheiðin en um 113 km miðað við að fara Blönduhlíð og Öxnadalsheiði.

Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng, annars vegar milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar sem eru tæpir 4 km að lengd og hins vegar milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar sem eru rúmir 7 km að lengd. Samanlögð lengd ganga í bergi er 10.570 m og við alla gangamunna eru steyptir vegskálar sem eru samtals um 450 m að lengd. Heildarlengd ganga með vegskálum er því 11.020 m. Göngin eru tvíbreið og neyðarútskot eru með 500 m millibili. Að auki eru þrjú stór snúningsútskot fyrir löng ökutæki.

Verkið nær einnig til aðkomuvega utan ganga ásamt ýmsum tengivegum, samtals um 4 km að lengd. Bygging brúar í Héðinsfirði var einnig hluti af verkframkvæmdinni.


Göngin voru grafin úr báðum áttum og hófust gangasprengingar Siglufjarðarmegin síðla í september 2006 og í byrjun nóvember sama ár frá Ólafsfirði. Gröftur frá Siglufirði gekk almennt vel og sprengt var út til Héðinsfjarðar 21. mars 2008. Í byrjun maí 2008 var síðan byrjað á gangagreftri í austanverðum Héðinsfirði og voru tæplega 2 km grafnir frá Héðinsfirði og í átt til Ólafsfjarðar en þar var greftri hætt í lok janúar 2009.

Frá Ólafsfirði gekk gröftur misvel og á köflum afar hægt vegna mikils vatnsinnrennslis og tímafrekra bergþéttinga. Sprengt var í gegn til Héðinsfjarðar þann 9. apríl 2009 og tók því gangagröfturinn alls um tvö og  hálft ár.

Eftir gangagröft var unnið við endanlegar styrkingar á bergi og síðan lagningu fráveitukerfis í göngum sem er umfangsmikið en heildarlengd fráveitulagna í gangagólfi er um 32 km. Vinna við vatnsklæðningar var einnig mikil en allt vatn í veggjum og lofti ganganna er skermað af með plastklæðningum og leitt ofan í fráveitukerfi í gólfi. Klæðningarnar eru síðan  brunavarðar með sprautusteypu. Heildarflatarmál vatnsklæðninga í göngum er um 77.000 m2. Unnið var við vegagerð og aðra jarðvinnu utan ganga öll sumur verktímans. Samfelld vinna var við uppsteypu vegskála frá júlí 2008 þegar byrjað var á skála í Siglufirði og fram í febrúar 2010 er lokið var við skálann í Ólafsfirði. Malbikun aðalvegar Siglufjarðarmegin fór fram í júlí og vegur í göngum malbikaður í september á þessu ári.

mbl.is/KG
Það voru margir sem tóku þátt í að klippa á …
Það voru margir sem tóku þátt í að klippa á borðann með Ögmundi Jónassyni. Jóhann Óli Hilmarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert