Væri hreinlegra að loka heilbrigðisstofnunum

Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/RAX

Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, líst ekki vel á fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á Alþingi fyrir helgi. „Allir gera sér grein fyrir því að skera þarf niður en forsendur varðandi heilbrigðiskerfið ganga ekki upp, svo dæmi sé tekið,“ segir Halldór.

„Mér sýnist þetta koma afskaplega mismunandi við sveitarfélög og verða ansi snúið,“ segir Halldór við Fréttavef Morgunblaðsins um fjárlagafrumvarpið.

„Ég hef verulegar áhyggjur af mörgum sveitarfélögum, ekki síst á landsbyggðinni. Mjög er vegið að ýmsum stofnunum, t.d. sýslumönnum, lögreglunni og skattstofum; þetta eru lykilstofnanir í samfélaginu og víða svo smáar að með miklum niðurskurði verður varla hægt að reka þær áfram og stofnanirnar leggjast því af á endanum.“

Þá nefnir hann heilbrigðiskerfið og líst síður en svo vel á, svo vægt sé til orða tekið.

Með 40% niðurskurði í rekstri heilbrigðisstofnunar, sem dæmi er um, segir Halldór að í raun sé verið að leggja hana niður. Vitaskuld sé ekki hægt að reka hana með sama sniði og áður og því verði raunverulega um allt aðra stofnun að ræða. „Mér finnst vanta skýra ákvarðanatöku um að leggja stofnanir niður - það væri hreinlegra en skera svona mikið niður, því með niðurskurðinum er í raun verið að leggja hana niður.“

Halldór nefnir á að hefði hann, sem bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, greint skólastjóra grunnskólans frá því, að hann yrði að skera niður um 40%, myndi skólastjórinn auðvitað benda á hann yrði að segja upp 40% bæði starfsfólks og nemenda. Við niðurskurð á síðasta ári - til dæmis í heilbrigðiskerfinu - hafi fita verið skorin af þar sem það var hægt, en hætta sé á að ekki sé mikil fita eftir nú. Því verði skorið inn að beini.

„Við vitum að árið 2011 verður mjög erfitt, sérstaklega hjá hinu opinbera, en ég leyfi mér að vonast til þess að eftir það liggi leiðin upp á við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka