Prestar furða sig á niðurstöðu um landsdóm

Prestarnir eru ánægðir með starf nefndar Atla Gíslasonar.
Prestarnir eru ánægðir með starf nefndar Atla Gíslasonar. Ómar Óskarsson

„Enn einu sinni erum við, þjóðin, að horfa upp á stjórnmálastétt okkar falla á prófi. Það er sárt. Nú sem aldrei fyrr erum við í þörf fyrir traust og samstöðu til góðra verka. Tími uppbyggingar virðist enn ekki vera genginn í garð við Austurvöll.“ Þetta segja átta guðfræðingar í pistli á vefnum tru.is um niðurstöður Alþingis um málhöfðun gegn ráðherra.

Í hópnum eru sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Baldur Kristjánsson, dr. Hjalti Hugason, dr. Pétur Pétursson, sr. Sigrún Óskarsdóttir, dr. Sigurður Árni Þórðarson og dr. Sólveig Anna Bóasdóttir.

Í greininni segir að þegar vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir virtist þingið ætla að bregðast við með ábyrgum hætti. Þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka undir forsæti Atla Gíslasonar var fengið það vandasama hlutverk að taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfalla þjóðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af þeim.  Samstaða virðist um að þingmannanefndin hafi skilað góðri vinnu í þessu efni.

„Því miður koma viðbrögð þingheims sjálfs þjóðinni í opna skjöldu. Hann reyndist ekki þeim vanda vaxinn að kalla ráðherra til ábyrgðar. Má segja að hlutur forsætisráðherra sé þar sýnu verstur en mánudaginn 20. sept. s.l. talaði hún mjög niður tillögur meirihluta þingmannanefndarinnar í ræðustól Alþingis.

Í 14. grein stjórnarskrárinnar segir „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Það er átakanlegt að horfa upp á ráðaleysi þingmanna þegar þeim er ætlað það erfiða hlutverk að skapa framkvæmdavaldinu raunverulegt aðhald. Í umræðunum um tillögur hins klofna meirihluta þingmannanefndarinnar um að sækja þrjá eða fjóra fyrrum ráðherra til ábyrgðar hefur hver hlaupið í sína átt og þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eðli málsins. Þar koma í ljós hefðbundin viðbrögð kunningjasamfélagsins sem eru gagnrýnisleysi og samtrygging.

Í þingsölum hefur framkvæmd þessa ákvæðis verið líkt við pólitísk réttarhöld. Slíkt er ekki nokkru lagi líkt. Alþingi getur samkvæmt ákvæðinu aðeins kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Í kæru felst hvorki saksókn né sakfelling. Í kæru felst aðeins það að löggjafarvaldið skýtur því til dómsvaldsins að rannsaka gjörðir framkvæmdavaldsins. — Hlýtur Hrunið 2008 ekki að gefa nægilega ástæðu til þess að slík rannsókn fari fram?“ er spurt í pistli guðfræðinganna.

Pistillinn á tru.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert