Skoða áfram skaðabótamál

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Ómar Óskarsson

Ekkert liggur enn fyrir hvort grundvöllur er fyrir ríkið að höfða skaðabótamál á hendur þeim lögaðilum og einstaklingum sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og almenningi í landinu fjárhagslegu tjóni með athöfnum sínum í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins. Tæpt ár er síðan fjármálaráðherra skipaði nefnd til að skoða grundvöll ákæru.

Ríkisstjórnin samþykkti 25. ágúst í fyrra að skipa nefnd til að fara yfir þetta mál. Eftir ríkisstjórnarfundinn sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í samtali við Morgunblaðið: „Þetta hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu um nokkurt skeið, sem liður í almennri hagsmunagæslu fyrir ríkið og því að stuðla að framvindu rannsókna og aðgerða þannig að réttlætið nái fram að ganga.“

Nefndin var skipuð 10. desember í fyrra. Formaður hennar er Hafdís Ólafsdóttir lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu. Hún segir að málið sé enn í skoðun í nefndinni. Ekki liggi fyrir hvenær hún ljúki störfum. „Það er verið að meta möguleikana,“ segir Hafdís.

Í erindisbréfi starfshópsins segir að verkefni hans sé „að skoða hvort unnt sé að hefja og reka skaðabótamál á hendur þeim lögaðilum og einstaklingum sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og almenningi í landinu fjárhagslegu tjóni með athöfnum sínum í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins. Slík mál yrðu þá rekin sem einkamál og kröfur ríkisins einkaréttarlegs eðlis, þ.e. að ríkið krefðist bóta fyrir tjón sem það hefur orðið fyrir vegna verka annarra.

Starfshópurinn skal ásamt sjálfstætt starfandi lögmönnum, undirbúa hugsanleg skaðabótamál, m.a. með því að athuga í hvaða tilvikum líklegt sé að að hefja megi slík mál, skilgreina einstök mál og velja þau sem líklegt er að geti haft hraðan framgang og fordæmisgildi. Í kjölfarið skal svo metið hvort unnt væri að hefjast handa með því að æskja kyrrsetningar á eignum hlutaðeigandi tjónvalds, einstaklings eða lögaðila. Þá skal í lok undirbúningsvinnu metið og ákveðið hvort og með hvaða hætti staðið yrði að málshöfðun og þá m.a. hvort hún í yrði í höndum ríkislögmanns eða annarra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert