Vill fund um niðurskurð

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi hefur óskað eftir fundi í heilbrigðisnefnd Alþingis vegna niðurskurðar í rekstri heilbrigðisstofnana víða um land sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram sl. föstudag.

Í bréfi til fjölmiðla í kvöld kveðst Sigmundur Ernir í þessu efni horfa sérstaklega til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er reiknað með um 40 prósenta niðurskurði hjá þeirri stofnun, sem er meira en hjá nokkurri annari. Telur þingmaðurinn að sá niðurskurður kippi fótunum undan rekstri stofnunarinnar. Hann telur jafnframt brýnt að skoða mikilvægi sjúkraþjónustu á landinu öllu, með tilliti til aðgengis almennings að henni.

„Ég fer þess á leit að allir málsaðilar verði kallaðir á þennan fund; svo sem forstöðumenn, lykilmenn fagfélaga og ráðuneyta. Hér er um algera grunnstoð velferðarþjónustu að ræða og því brýnt að heilbrigðisnefnd sé upplýst um málið í hvívetna,“ segir Sigmundur Ernir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert