Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, að áminning sem menntamálaráðuneytið veitti skólameistara framhaldsskóla hafi verið ólögmæt þar sem hún braut gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.
Skólameistarinn fékk áminninguna vegna þess að hann hefði ekki farið eftir fyrirmælum ráðuneytisins um framtal prófaðra nemenda. Jafnframt vísaði ráðuneytið til þess, að engin vissa væri um að hann myndi fara eftir fyrirmælum ráðuneytisins í framtíðinni.
Fram kom að ráðuneytið hefði tilkynnt fimm skólameisturum að ráðgert væri að veita þeim áminningu af sömu ástæðu. Skólameistararnir svöruðu með bréfum sem bárust ráðuneytinu í janúarbyrjun 2008.
Í kjölfar svara skólameistaranna fimm tók menntamálaráðuneytið ákvörðun um að veita tveimur skólameisturum áminningu en hinir þrír skólameistararnir hlutu ekki áminningu. Í bréfum til þeirra skólameistara, sem ekki hlutu áminningu, var m.a. vísað til þess að ákvörðun um að veita þeim ekki áminningu væri tekin í ljósi skýlausrar yfirlýsingar viðkomandi skólameistara um að farið yrði að fyrirmælum ráðuneytisins.
Skólameistarinn, sem leitaði til umboðsmanns Alþingis taldi sig einnig hafa gefið slíka yfirlýsingu í svarbréfi sínu og óskaði þess því að áminning hans yrði afturkölluð. Ekki var orðið við því.
Umboðsmaður segir í niðurstöðu sinni, að hann telji málin fimm hafa verið sambærileg. Af því leiddi að mismunur á úrlausn ráðuneytisins á málefnum einstakra skólameistara yrði að hafa verið reistur á frambærilegum og málefnalegum forsendum.
Umboðsmaður bar síðan saman svör skólameistarans áminnta og svör skólameistaranna þriggja, sem
ekki fengu áminningu, til menntamálaráðuneytisins og komst að þeirri niðurstöðu
að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á sá mismunur, sem ráðuneytið vísaði til byggðist á frambærilegum og
lögmætum sjónarmiðum.