Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að umtalsverður árangur hafi orðið í viðræðum Íslendinga, Breta og Hollendinga um lausn á Icesave-deilunni. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um íslensk efnahagsmál.
Fram kemur í skýrslunni, viðræðurnar hafi snúist um kjör á endurgreiðslum Íslands til hinna ríkjanna tveggja vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Hafi dregið úr líkum á að málið fari fyrir dómstóla og jafnframt hafi líkur aukist á að samningar náist um skilmála fyrr en áætlað var.
Verði þetta niðurstaðan muni það greiða fyrir frekari fjármögnun í samræmi við samning Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem send var fyrir þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum, er ítrekað að íslensk stjórnvöld stefni að því að ljúka samningum um endurgreiðslur til Bretlands og Hollands vegna innlána hjá föllnu íslensku bönkunum.
Viðræður hafi farið fram frá því önnur endurskoðun efnahagsáætlunarinnar fór fram og skipst hafi verið á tillögum.
Undir fyirlýsinguna skrifa þau Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.