Búið að slökkva elda

Bál logaði á Austurvelli í kvöld.
Bál logaði á Austurvelli í kvöld. mbl.is/Ómar

Búið er að slökkva eld, sem logað hefur á Austurvelli í kvöld. Lögreglan er nú stugga við síðustu mótmælendunum á vellinum en mjög fámennt var orðið á Austurvelli undir miðnætti.

Austurvöllur er illa leikinn eftir mótmæli kvöldsins en áætlað er að um 7000 manns hafi verið í miðborginni þegar mest var. Greinar voru rifnar af trjám og settar á bálið og sömuleiðið garðbekkir. Þá er mikið af rusli. Lögreglan vinnur nú við að fjarlægja tunnur af Austurvelli en mótmælendur börðu á þær fyrr í kvöld.

Lögreglan var um miðnættið að ræða við hóp mótmælenda utan við veitingahúsið Café Paris og biðja þá um að koma sér á brott. Slökkviliðsmenn voru einnig á Austurvelli.
 
Grjót buldi á bílum þingmanna og ráðherra þegar þeim var ekið upp úr bílakjallara Alþingis í kvöld og dæmi voru um að veist hafi verið að alþingismönnum þegar þeir yfirgáfu þinghúsið. 

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, sagði að lögregla hefði ekki getað komið í veg fyrir grjótkastið. Mótmælendur hefðu kastað því af töluverðu færi, hefðu einfaldlega látið vaða ofan í kjallarann og hitt einhverja bíla. Áður hafði skoteldatertu verið kastað ofan í kjallarann. Enginn var handtekinn vegna þessara atvika.  

Geir Jón telur að aðgerðir lögreglu hafi tekist eins vel og framast var unnt. Miklu hefði munað um álgirðinguna sem reist var framan við Alþingishúsið. „Það var auðséð að þeir sem ætluðu sér að fara í okkur áttu óhægt um vik,“ sagði hann.

Meirihluti þeirra sem tóku þátt í mótmælunum gerðu það á friðsamlegan hátt en tiltölulega lítill hópur lét ófriðlega og nokkrir virtust nýta tækifærið til að grýta húsið, án þess að nokkru sérstök ástæða önnur en skemmdarfýsn lægi að baki. Eggjum, málningu, golfkúlum, glerflöskum, stórum spýtum og fleiru var kastað að Alþingishúsinu. Rúður brotnuðu í húsinu og a.m.k. einn mótmælandi fékk glerílát í höfuðið svo skurður hlaust af. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka