Engin fleiri úrræði

mbl.is

Ríkisstjórnin mun ekki bjóða upp á fleiri úrræði til handa skuldugum heimilum, að því er kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkvæmt upplýsingum frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vísar sjóðurinn til þess að ekki verði flatur niðurskurður á höfuðstól skulda.

Í skýrslunni segir að eftir stofnun embættis umboðsmanns skuldara, sé skuldavandaáætlun ríkissjórnarinnar endanlega komin á koppana og að nú verði „aukinnar þáttöku heimila" krafist, eins og það er orðað í skýrslunni. Frestun nauðungaruppboða fellur að sama skapi úr gildi í þessum mánuði, og verður ekki framlengd.

Í orðsendingu frá starfsmönnum sjóðsins er því fagnað að frestun nauðungaruppboða verði nú felld úr gildi. Hins vegar koma einnig fram áhyggjur vegna þess að stjórnvöld hafa ekki haft hemil á væntingum almennings um frekari skuldaúrræði.

Stjórnvöld eigi þannig að senda út sterk skilaboð þess efnis að ekki verði frekar komið til móts við skuldara með lagasetningum eða öðru.

Von er á lagafrumvarpi frá efnahags- og viðskiptaráðherra í þessari viku um að öll gengistryggð lán verði gerð ólögleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert