„Mér finnst stjórnin handónýt. Ég vænti þess að stjórnin segi af sér og að við fáum eitthvað nýtt svo það fari eitthvað að gerast hjá okkur,“ segir Guðjón Antonsson, einn mótmælenda á Austurvelli. Guðjón krefst þess að fá að njóta sömu kjara og auðmenn í bankakerfinu.
- Kaustu annan stjórnarflokkanna?
„Já.“
- Hefurðu orðið fyrir vonbrigðum með þá?
„Já. Mjög svo. Það er aðgerðaleysið. Það er búið að hygla glæpamönnum, finnst mér. Ég vil fá að sitja við sama borð og þeir.“
Afskrifa skuldir auðmanna
„Ég er komin hingað til að mótmæla því að fólk sé borið út,“ segir Svanborg Óskarsdóttir, annar mótmælenda.
„Við erum í djúpum skít þjóðin en það er spurning hvað eigi að gera. Ég vil að það sé farið í alla sjóði eins og til dæmis kom fram hjá Sjálfstæðisflokknum að það yrði farið í skattinn af séreignasparnaði. Við eigum að nota þær holur sem að hægt er. Ekki að byrja að skera niður hjá þeim sem minnst mega sín. Það er líka erfitt að horfa upp á að það sé verið að afskrifa milljarða skuldir hjá þeim sem fóru kannski glannalegast á meðan fólk með litlar upphæðir er sett á götuna.“