Girðing um Alþingishúsið

Álgirðing hefur verið sett umhverfis Alþingishúsið.
Álgirðing hefur verið sett umhverfis Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus

Álgirðing hefur verið sett umhverfis Alþingishúsið en búist er við fjölmennum mótmælum á Austurvelli í kvöld þegar umræða um stefnuræðu forsætisráðherra fer fram.

„Við reynum að vera við öllu búnir. Við vonum það besta, en erum búnir undir það versta,“ sagði Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem stjórnar aðgerðum lögreglunnar í kvöld. Hann sagði að lögreglan yrði með fjölmennt lið á staðnum.

Arnar sagði að girðingin væri sunnan megin við Alþingishúsið og framan við Dómkirkjuna. „Þetta eru litlar lokanir. Það er bara búið að sýna sig að borðarnir okkar duga ekki. Kaðlar sem við settum upp voru skornir í sundur á föstudaginn. Þetta er því næsta skref því að hitt dugar ekki.“

Boðað hefur verið til mótmæla við Alþingishúsið klukkan 19:30. Á sama tíma hefur verið boðað til mótmælaaðgerða á Ráðhústorginu á Akureyri og á Silfurtorgi á Ísafirði. 

Embætti ríkislögreglustjóra lét smíða girðinguna hér á landi fyrr á þessu ári, sem er sérhönnuð til að nota í mótmælaaðgerðum. Er girðing smíðuð að erlendri fyrirmynd. Ákveðið var fjárfesta í girðingunni eftir mótmælin sem brutust út í janúar í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert