Hætt að segja háttvirtur

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur ákveðið að hætta að ávarpa þingmenn og ráðherra úr ræðustól á Alþingi með orðunum „háttvirtur“ og „hæstvirtur“. Hún segist vera í hópi þeirra landsmanna sem treysti ekki Alþingi.

„Það er hefð fyrir því og þykir góð þingvenja að ávarpa þingmenn með orðinu háttvirtur en ráðherra með hæstvirtur hér úr ræðustól Alþingis. Mér hafa alltaf þótt þessi ávarpsorð úr takti við nútímann en nú þegar bæði þingið og þingmenn eru rúnir virðingu virka þau eins og öfugmæli eða lélegur brandari. Hvorki þingmenn né ráðherrar öðlast virðingu með hjákátlegum ávarpsorðum sem fela í sér stéttskiptingu, stigveldi og ójöfnuð sem stríðir gegn lífsskoðunum mínum og þeirri samfélagsmynd sem ég vil vinna að,“ sagði Margrét í ræðu sinni á Alþingi.

Síðar í ræðu sinni sagði Margrét: „Því hefur verið fleygt að þingmenn eyði öllum tíma sínum í karp um lítilsverða hluti og því sitji málefni skuldsettra heimila á hakanum. Það er ekki rétt. Heimilin sitja á hakanum vegna þess að ríkisstjórnina og meirihluta þingmanna skortir vilja til að leysa mál þeirra með réttlæti að leiðarljósi. Það verður að breytast strax, enginn heiðvirður maður getur horft upp á það óréttlæti sem felst í því að tjóninu á því bankaráni sem hér virðist hafa verið framið sé velt yfir á almenning í landinu á meðan kvótagreifar og útrásarþjösnarar fá afskrifaða milljarðar á milljarða ofan en halda samt öllu sínu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert