Stjórnmálaskýrendur breska blaðsins Financial Times segja, að búast megi við því að frönsk stjórnvöld verði fastari á sínu gagnvart Evrópusambandinu næsta árið en það styttist í að forsetakosningar fari fram í Frakklandi.
Deilu Frakka og Evrópusambandsins vegna brottreksturs sígauna frá Frakklandi er ekki lokið. Þá eru embættismenn sagðir óttast að Frakkar muni draga lappirnar gagnvart frekari stækkun Evrópusambandsins. Aðildarviðræður Króata séu væntanlega of langt komnar svo hægt sé að stöðva. En Financial Times hefur eftir norrænum sendimanni, að Íslendingar geti ekki vænst neinnar greiðasemi frá Frökkum.
Frakkar eru alfarið á móti því að Tyrkir fái aðild að ESB og hefur þessi afstaða leitt til þess að samskipti Frakka og Breta hafa versnað.
Forsetakosningar fara fram í Frakklandi eftir eitt og hálft ár. „Ég óttast að þetta sé hluti af þróun," hefur Financial Times eftir háttsettum evrópskum sendimanni. „Þegar við nálgumst maí 2012 verður hendinni oftar slæmt til Brussel."
Sendimenn segja, að ástæðan sé ekki andstaða Sarkozys við Evrópusambandið sem ráði þessu heldur ergelsi yfir því, að ESB beiti sér ekki af fullum þunga á alþjóðavettvangi þótt bandalagið hafi nú, með Lissabonsáttmálanum, fengið vopn í hendur til þess.