Lög og reglur með hliðsjón af fólki

Bjarni Bendiktsson flytur ræðu sína á Alþingi í kvöld.
Bjarni Bendiktsson flytur ræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem vinstri flokkar hafa aldrei skilið er að hlutverk okkar stjórnmálamanna er að haga lögum og reglum með hliðsjón af því hvernig fólk er - ekki því hvernig við viljum að fólk sé," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.

Bjarni sagði, að það þyrfti almennar, einfaldar lausnir þar sem sá forsendubrestur, sem hér varð, sé viðurkenndur. 

„Hann varð ekki bara vegna erlendra lána.  Meirihlutinn voru verðtryggð lán í íslenskum krónum. Þar hefur líka orðið forsendubrestur vegna verðbólgunnar," sagði hann.

Bjarni sagði,  að það væri rétt hjá fjármálaráðherra að taka þurfi  rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið.  Hins vegar verði ekki bundinn endi á kreppuna með niðurskurði og skattahækkunum.

„Höfuðáherslu verður að leggja á að hagkerfið taki við sér og fari að vaxa. Við þurfum að vaxa út úr vandanum.  Vaxa inn í framtíðina. Verkefnið sem ríkisstjórnin ætti að vera að vinna að með öllum sínum gerðum, er uppbygging atvinnulífsins. Það er með hreinum ólíkindum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli hvað eftir annað stöðva atvinnuskapandi verkefni, annað hvort með beinum ráðherraákvörðunum eða með svo miklu fálæti að fjárfestar gefast upp á biðinni.

Sama hvert litið er eiga innlendar þjónustugreinar og iðnaður undir högg að sækja. Minni og meðalstór fyrirtæki eiga í daglegri  baráttu fyrir lífi sínu. Endurreisn íslensks efnahagslífs byggir á því að þessum fyrirtækjum verði skapaðar lífvænlegar aðstæður, til að auka framleiðni, til að minnka atvinnuleysi og til að koma í gang verðmætasköpun sem eykur hagvöxt.
Lykillinn að því að lífskjör Íslendinga batni er að skapa störf. Til að atvinnulífið komist á skrið og fólkið í landinu fái vinnu þarf að sjá til þess að þau verkefni sem okkur bjóðast í dag, að þau atvinnuskapandi og verðmætaskapandi tækifæri sem ótvírætt eru á borðinu verði nýtt.  Ríkisstjórn sem ekki skilur slíka grundvallarþörf, hún verður að víkja," sagði Bjarni meðal annars. 

Þá sagði hann að þjóðin þyrfti styrka forystu, ríkisstjórn sem hefði kjark til þess að taka ákvarðanir, byggja upp atvinnulífið og lækka skattbyrði almennings og fyrirtækja.
 
„Og við þurfum ríkisstjórn sem er samstarfshæf við hagsmunasamtök, hafnar ekki hugmyndum fyrir þær sakir einar að þær koma frá pólitískum andstæðingum, heldur leiðir fram lausnir sem horfa til hagsældar fyrir þjóðina á erfiðum tímum," sagði Bjarni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka