Forseti Íslands segir að því miður sé svo komið að ein starfsstétt, eiturlyfjasalar, vinni að því markvisst hér á landi að drepa ungmenni. Þetta sagði hann í ræðu í Flensborg í Hafnarfirði við upphaf verkefnisins Heilsueflandi framhaldsskóli.
Sagt er frá hátíðarhöldunum og ræðu forsetans á gaflari.is, fréttavef fjölmiðladeildar Flensborgar.
Flensborg er fyrsti framahaldsskólinn hér á landi sem tekur upp þessa stefnu en 21 annar skóli fetar í fótspor Flensborgar að ári liðnu.
Áfanganum var fagnað í Flensborg síðastliðinn föstudag, á Flensborgardaginn. Auk Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, tóku Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra þátt í hátíðarhöldunum.
Forsetinn sagði í ávarpi sínu að nýta yrði hvert tækifæri til að efla forvarnir og hvetja unglinga til að velja heilbrigt líferni.