Nú er komið að ögurstundu

Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra.
Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sagði á Alþingi í kvöld, að hægar hefði gengið að leysa úr skuldamálum en áætlað var, úrræði hefðu ekki virkað nægilega hratt og samstaða um lausnir ekki næg.

„Nú er komið að ögurstundu og Alþingi Íslendinga, hver einasti þingmaður og stjórnvöld verða að gefa afdráttarlaus skilaboð um að nú verði tekið á málum af festu og fundnar lausnir sem duga," sagði Guðbjartur.

Hann fór yfir ýmis úrræði, sem grípa þyrfti til, svo sem að tryggja að þeir sem missa húsnæði sitt geti búið þar áfram gegn hóflegri leigu. Hindra þurfi, að lán, sem felld hafa verið niður í greiðsluaðlögun, falli ekki á ábyrgðarmenn eða þá sem hafa lánað veð.

Guðbjartur sagði mikilvægt að leiðrétta, að ekki verði gripið til aðgerða eftir 1. nóvember vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Það verður gripið til þeirra ráða sem duga," sagði hann.

Guðbjartur sagði, að reynt yrði að tryggja að heilsugæslan yrði áfram öflug um allt land enda grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar. Ráðist verði í endurskoðun á sjúkrasviði heilbrigðisstofnana, nema á stærstu sjúkrahúsunum þar sem veitt verði áfram sérhæfðasta þjónustan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert