„Það verður að viðurkennast að í samfélaginu er að skapast hættuástand," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð sagði, að tvennt þyrfti til að hindra, að ástandið færi úr böndunum. „Tryggja þarf að fólk, sem hefur orðið fyrir miklum efnahagslegum skakkaföllum, jafnvel er við það að missa heimili sín, fái sanngjarna málsmeðferð og stjórnvöld sýni, að þau séu reiðubúin til að verja hagmuni þegnanna fremur en að sýna alþjóðastofnunum þjónkun.
Hitt sem þarf að gerast, til að koma í veg fyrir glundroða, er að stjórnvöld geri almenningi ljóst að ofbeldi verði aldrei liðið og aldrei umborið. Hvorttveggja snýr þetta að því, að fólk geti verið fullvíst að stjórnvöld standi vörð um réttlæti," sagði Sigmundur Davíð.