„Tunnumótmæli“ hafa verið boðuð við alþingishúsið í kvöld þegar Jóhanna Sigurðardóttir flytur stefnuræðu sína. Í boðun mótmælanna er fólk beðið að koma með áhöld sem heyrist vel í.
Þingfundur er boðaður klukkan 19.50 í kvöld. Eina málið á dagskrá er stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.
Í útkalli mótmælenda á samskiptavefnum Facebook segir meðal annars: „Við skulum skapa henni réttan undirleik og umgjörð. Ómsterkir eða stórir hljómgjafar eru afar vel séðir. Mætum í öllum okkar fjölbreytileik og stöndum saman í því að koma vantrausti okkar á því sem fram fer innan þingsins á framfæri.“
Verið er að mótmæla aðild Alþingis að fjármálakreppunni sem og atkvæðagreiðslunni um landsdóm.