Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni í kvöld að hún muni víkja til hliðar ef það auðveldi úrlausn þeirra viðamiklu verkefna sem framundan eru. Hún muni hins vegar ekki skorast undan því að takast á við verkefnin sé það vilji þingsins.
Jóhanna sagði að óánægja og ósætti væri ríkjandi inn á þingi og í samfélaginu. „Við verðum að slíðra sverðin. Við höfum um það val að gera illt verra, grafa okkur niður í skotgrafir og láta reiðina stjórna för eða vinna okkur sameiginlega út úr vandanum. Ég lýsi mig reiðubúna til samstarfs við alla stjórnmálaflokka bæði um löngu tímabæra endurskoðun á lögunum um landsdóm og lögunum um ráðherraábyrgð og aðra þá þætti sem gætu grætt þau sár sem átök undanfarinna vikna hafa skilið eftir.
Það hefur að sjálfsögðu ekki farið framhjá mér að ýmsir þingmenn kalla
eftir kosningum. Muni nýtt þing, ný ríkisstjórn og tafarlausar kosningar
auðvelda úrlausn þeirra viðamiklu verkefna sem framundan eru þá mun
ekki standa á mér að víkja til hliðar. Ég og ríkisstjórn mín munum ekki
skorast undan því að ljúka þeim verkefnum sem sem við blasa sé það vilji
þingsins.“
Jóhanna ræddi um skuldamál heimila sem hún sagði að væri erfiðasta mál þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefði tekist á við þennan vanda og grípið til margvíslegar aðgerðir. Hún sagði ljóst að heimilin með lægstu launin stæðu verst og réðu ekki við skuldirnar.
Jóhanna sagði að nýfallinn dómur Hæstaréttar lækkaði skuldir heimilanna um 43 milljarða og fækkaði heimilum sem ættu við alvarlegan vanda um 5.000.
Jóhanna gagnrýndi í ræðu sinni hvernig bankarnir hefðu unnið úr skuldamálum heimila og fyrirtækja. Hún vitnaði í skýrslu eftirlitsnefndar með skuldaaðlögun bankanna sem er að koma út. Hún sagði að þar kæmi fram að aðeins 128 heimili hefðu fengið greiðsluaðlögun og aðeins 51 fyrirtæki.