Arion banki: Umtalsverður árangur

Arion banki hefur sent frá sér tilkynningu vegna ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í stefnuræðu á Alþingi í gærkvöldi þar sem hún skaut föstum skotum að bönkunum og sagði að aðeins 128 heimili hefðu fengið greiðsluaðlögun. Segir bankinn að umtalsverður árangur hafi náðst innan bankans í úrlausnarmálum einstaklinga og fyrirtækja.

„Vissulega væri óskandi að árangurinn væri enn meiri en hér eru á ferðinni flókin og tímafrek úrlausnarefni þar sem vanda þarf til verka. Úrlausnarmál einstaklinga og fyrirtækja eru forgangsmál innan bankans," segir í tilkynningunni.
 

Þar kemur fram að um 3.000 einstaklingar hafa nýtt sér þær lausnir sem bankinn hefur boðið upp á varðandi íbúðalán, þar af hefur bankinn samþykkt 150 sértækar skuldaaðlaganir. Hafa verði í huga að mikið dró úr afgreiðslu mála í sumar vegna óvissu tengdri gengisdómum og nú er beðið eftir boðuðu frumvarpi ráðherra.
 
Ákveðið var í október 2009 að Arion banki myndi ekki fara fram á nauðungarsölur fasteigna einstaklinga út árið 2010, segir í tilkynningu Arion banka.
 
„Í úrlausnarmálum fyrirtækja hefur Arion banki lagt áherslu á stærri fyrirtæki og er búið að ná samkomulagi við um tvo þriðju hluta stærri fyrirtækja sem eiga við skuldavanda að glíma. 
 
 Þar sem vinna með stærri fyrirtækjum er vel á veg komin færist áherslan nú yfir á smærri fyrirtæki og lausnir fyrir þau."
 
 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka