Jóhanna Sigurðardóttir hyggst boða formenn allra stjórnmálaflokkanna á fund í dag til þess að ræða stöðuna í þjóðfélaginu í ljósi fjöldamótmælanna í gær.
Í viðtali við RÚV sagði hún þingmenn verða að taka höndum saman til að finna lausnir á skuldavanda fólks.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist seint í gærkvöldi ekki hafa fengið neitt slíkt fundarboð en lýsti sig tilbúinn til að hlusta á hugmyndir forsætisráðherra. „Það er útgjaldalaust af okkar hálfu að mæta á fund. Mikilvægast fyrir hana er að átta sig á að þessi ríkisstjórn getur ekki starfað áfram,“ sagði Bjarni.